Velkomin/n!
Mig langar til að segja þér frá því hvernig er að vera íslenskt tónskáld í Brighton og hvernig ég finn innblástur fyrir tónlistina sem ég skrifa. Við munum m.a. dást að íslenskum fjöllum, hlusta á íslenska náttúru, fá heimþrá, grafa upp gamlar minningar og ferðast í huganum um þjóðveginn.
Þegar ég hugsa um fallegu hljóðin í náttúru Íslands eru fjöllin óaðskiljanlegur, og kannski líka óskiljanlegur, hluti þeirrar hljóðmyndar. En, hvernig hljóma fjöllin?
Ég legg af stað í ferðalag í huganum til að finna hljóm fjallanna.
Komdu með.
En fyrst! Það á jafnmikið að hlusta á þessa grein og að lesa hana. Ég sting upp á upptökum af verkum mínum á nokkrum stöðum í textanum sem þú getur haft í eyrunum á meðan þú lest.
Fyrsta upptakan er af sönglaginu mínu „Vetrarþoka“ í flutningi Rannveigar Káradóttur söngkonu og Birnu Hallgrímsdóttur píanóleikara. Þetta er ein af mínum uppáhalds upptökum. Þær gera tónlistina algerlega að sinni.
Íslenskt tónskáld í Brighton
Hvernig er það að vera íslenskt tónskáld í Brighton, Englandi? Þegar ég hefst handa við að skrifa nýtt tónverk, leita ég fyrst að innblæstri. Eftir mörg ár af naflaskoðun hef ég komist að því að besti brunnurinn er í gömlum minningum, íslenskri náttúru, í víðáttunni, við sjóinn, við fjöllin. Í Brighton er gott að búa og Brighton er mjög skemmtileg borg. Hérna er falleg og vinsæl strönd og veðráttan er almennt mjög þægileg. Fólkið er líka alveg einstaklega vinalegt og mannlífið líflegt og fjölbreytt.
En! Fyrir íslenskan sveitastrák þá kemur það reglulega fyrir að það er of lítið pláss, of mikið af fólki, og mikilvægast, alls ekki nógu mörg fjöll (hér eru engin fjöll, bara svo það sé á hreinu). Stundum er mannmergðin bara of mikil, húsin of mörg, umferðin of þétt.
Ég ólst upp í Kópavogi, en föðurættin mín er að norðan, frá Hvammstanga sem er við Miðfjörð í Húnaflóa, og þar hef ég miklum tíma eytt sem barn og fullorðinn. Við höldum enn öll mikið í þær rætur sem við höfum þar. Ég reyni að fara þangað nokkrum sinnum á ári til að hugsa, til að skrifa, til að tæma hugan og hlaða tónlistarbatteríin.
En ég get ekki flogið til Íslands í hvert sinn sem mig vantar pláss og fjöll. Til þess að finna víðáttuna, fjöllin og innblásturinn í slíkum tilfellum þá þarf ég að ferðast í huganum. Ég ferðast frá Brighton, til Keflavíkur, keyri í gegnum höfuðborgarsvæðið og út á þjóðveginn norður. Ég er í fjallaleit.
Á ferðalaginu finn ég margt sem ég ekki finn í Brighton, margt sem hleður mig og hefur bein áhrif á tónlistina sem ég skrifa.
Þegar ég lifi í heiminum, þá hlusta ég á heiminn
Hvammstangi er lítill, kyrrlátur bær. Flestir keyra framhjá, og það er sko allt í lagi. Meiri kyrrð og víðátta fyrir mig. Meiri kyrrð til að hlusta. Mér líður nefnilega hvað best þegar ég fæ að hlusta á falleg hljóð í ró og næði. Það hleður mig. Það opnar á mér hugan. Veitir mér innblástur.
Þegar ég lifi í heiminum, þá fyrst og fremst hlusta ég á heiminn. Ég hef laðast að náttúruhljóðum alla mína ævi. Fuglasöngur, vindur, skvaldur í læk, hafalda sem brotnar í fjörunni.
Föðurættin mín er þögult fólk.
Kannski má rekja það þögla eðli til þess að þau lifðu og hrærðust í þessu umhverfi, í fallegum hljóðum, í söng óteljandi fuglategunda, óteljandi vind-tegunda, við haf sem hefur eins mörg skapbrigði og mannfólkið og ótal tilbrigði við hljóð:
öldur, unnur, bylgja, bára, brim, lognalda, úthafsalda, öldukambur, gára.
Hvernig getur maður ekki einfaldlega staðið þögull og hlustað?
Þegar ég hlusta á þennan hátt þá finn ég fyrir dauðleika mínum, á góðan hátt. Ég finn fyrir hringrásinni, hringrás lífsins, óendanleikanum, og öllum þeim sem hafa upplifað það sama áður, og öllum þeim sem munu upplifa það sama á eftir mér. Þetta heldur mér á jörðinni og gerir mér gott.
Heyrirðu?
Hvaðan kemur þetta fallega hljóð?
Aldan brotnar í fjörunni, fuglarnir garga, kalla og syngja, skvaldur í læk, vindurinn blæs. Þetta eru einleikarar að flytja sólóin sín í fallegri belg og biðu.
Hvað felst í hljóðinu sem við heyrum?
Endurtekning. Stöðugleiki. Óendanleiki. Kraftur. Lífsafl. Lífsþróttur. Dugur. Afl. Hrynjandi. Öryggi. Áframhald. En á sama tíma umbreyting, mjög hæg umbreyting. Endurnýjun. Öguð og þolinmóð framvinda.
En það vantar eitthvað í þessa mynd! Þegar ég hugsa um fallegu hljóðin í náttúru Íslands eru fjöllin óaðskiljanlegur, og kannski líka óskiljanlegur, hluti þessarar hljóðmyndar.
Hvernig hljóma fjöllin?
Fjöllin hafa þagað í milljón ár.
Næsta upptaka:
„Nú er á himni og jörð“ í flutningi Kordíu, kór Háteigskirkju. Stjórnandi Guðný Einarsdóttir. Einsöngvari Margrét Hannesdóttir. Kordía hefur verið svo góð að frumflytja eftir mig þrjú verk og þau eru öll til á upptökum í þeirra frábæra flutningi.
Það má alltaf finna þöglu fjöllin, og íslenska náttúru í verkunum mínum. Þó að verkið sé ekki með titil sem gefur það beint til kynna, þá kemur orkan, aðal straumurinn, frá Íslandi.
Við höldum áfram ferðalaginu í huganum og keyrum norður út úr Mosfellsbænum. Esjan gnæfir yfir. Eftir skamma stund er Kollafjörðurinn á vinstri hönd. Kríur steypa sér eftir æti í spegilsléttan sjóinn. Sólin skín. Framundan er ekkert nema fyrirheit um yndisleg, frelsandi víðerni. Handan við hornið er Hvalfjörðurinn. Við sleppum göngunum auðvitað og stoppum við hvern foss, hverja sprænu og öndum að okkur frelsinu og kyrrðinni.
Þegar ég var barn á leiðinni norður með mömmu, pabba og bræðrum mínum þá stoppuðum við oft við sama litla fossinn innst norðan megin í firðinum og borðuðum nestið okkar. Stórkostlegt, óhindrað útsýni! Fyrir framan okkur, handa fjarðarins, er Reynivallaháls, fyrir aftan okkur Brekkukambur.
Við klárum nestið, stöndum upp og höldum áfram keyrslunni. Sveitasælan breiðir úr sér. Hin magnaða Borgarfjarðarbrú birtist fljótlega og hinum megin bíður okkar umbun: stórkostlegt útsýni í suður yfir á Hafnarfjall. Við stoppum lengi fyrir utan Geirabakarí og störum.
Og hlustum.
„Fjöllin hafa vakað í þúsund ár“…
…söng skáldið, en ég leyfi mér að bæta því við að þau hafi þagað í milljón ár.
Eða hvað?
Ég heyri óræðan, en sterkan, hljóðheim þegar ég hugsa um fjöllin okkar. En ég næ ekki beinum orðum yfir þennan heim, þó tilfinninga tengingin sé stundum svo sterk að ekkert annað kemst að í huga mínum.
Skáldið Cécile Sauvage, móðir stór-tónskáldsins Olivier Messiaen, skrifaði við upphaf 20. aldar:
„Ég þjáist af óþekktri, fjarlægri tónlist.“
Er þetta heimþrá? Kannski.
Synesthesia? Ég held ekki.
Nostalgía? Líklega.
Við nálgumst Bifröst, Dýjahnúkar og Baula á vinstri hönd, fljótlega birtist Norðurá á þá hægri. Þetta er eitt af mínum uppáhalds svæðum á Íslandi. Svo fjölbreytt og fallegt landslag. Saga landsins, berglögin, bókstaflega rís upp úr jörðinni.
Holtavörðuheiði. Varla stingandi strá svo langt sem augað eigir. Sönn víðátta. Ekkert nema pláss. Pláss til að hugsa. Pláss til að vera. Hin réttnefndu Snjófjöll og Tröllakirkja á vinstri hönd þegar toppnum er náð. Ekkert nema kyrrð.
Fjöllin hafa þagað í milljón ár…
…nei! Milljónir ára.
Það þarf að hlusta vel, gefa sér tíma, gleyma öllu öðru, leggja við hlustir og þá heyrir maður kannski óm djúpt að innan.
Þegar mér tekst að finna fjöllin í verkinu sem ég er að skrifa, þá gleymi ég alfarið hvað tímanum líður. Ég finn ekki til hungurs, ég finn ekki til þreytu. Ég sekk djúpt, skrifa og skrifa. Mér finnst þá eins og ég fljóti í tónlistinni, í tímaleysi. Vellíðan.
Næsta upptaka:
„I only write alto flute parts when I miss you“ – tileinkað og flutt af konunni minni Helen Whitaker á altó flautu. Við eyddum miklum tíma í að finna réttu tilfinningarnar í þessari tónlist og ég er mjög ánægður með útkomuna.
Af hverju gerðist ég tónskáld?
Það er að renna upp fyrir mér að ég hafi valið mér tónlist sem ævistarf því ég er ekki svo ólíkur þöglu föðurfjölskyldunni minni eftir allt saman. Það liggur beinna fyrir mér að vinna með óræða tóna, heldur en bein orð. Ég vildi að ég ætti auðveldara með orð og að við öll ættum auðveldara með að tjá okkur almennt. Tónlistin syrgir ef til vill þetta, syrgir nánd sem aldrei var. En er það of seint? Kannski er smá von líka? Tónlistin reynir að brúa bilið, en oft er eins og hún svífi út í tómið. Flöskuskeyti á rúmsjó. Nær það landi einhverstaðar?
Þetta er ókosturinn við starf listamannsins oft á tíðum. Of sjaldan koma flöskuskeytin til baka.
Music Patron getur kannski lagað þetta? Þau byggja veg sem liggur í báðar áttir milli tónskálds og áheyrenda, brúa bilið.
Við keyrum niður af heiðinni. Hrútafjörður birtist. Áfram í átt norður. Við nálgumst Miðfjörðinn. Við sjáum Fjalagilshæðir og Grenjadalsfell í fjarska, og fyrir neðan, Hvammstangi. Við beygjum af þjóðveginum til vinstri og keyrum í beinni línu norður að Vatnsnesi. Á vinstri hönd blátt og djúpt hafið. Á þá hægri, bóndabæir, hestar. Íslenski hesturinn. Stolt þjóðar.
Við erum komin.
Það er frískandi gola sem kemur inn fjörðinn úr norðri. Í fjarska sjáum við víðáttumikinn Húnaflóann og enn lengra eru Eyjafjöll, Balafjöll, austasti punktur Vestjarðarkjálka.
Við röltum rétt fyrir utan bæinn, finnum hvernig við endurnærumst, setjumst niður í fjöruna, og hlustum.
Ættir þú að gerast velunnari (patron)?
Takk fyrir að koma með mér í þetta ferðalag.
Viltu halda áfram? Þá hefur þú kannski áhuga á að gerast velunnari minn hér á Music Patron.
Velunnarar (patrons) fá umbun fyrir að styrkja tónskáld á Music Patron og ýmislegt fyrir sinn snúð, m.a.
- aðgang að reglulegum, ítarlegum myndbands uppfærslum frá mér þar sem ég sýni þeim t.d. verk í vinnslu, deili með þeim nýjustu upptökum og kryf tónlistina mína,
- velunnarar fá að sjá bak við tjöldin á æfingum og frumsýningum,
- velunnarar fá að spyrja mig spurninga um sköpunarferlið,
- og margt fleira.
Allar greiðslur fara beint og óskipt til þess tónskálds sem þú velur að styrkja.
Nánari upplýsingar um mig á Music Patron og hvernig þú getur orðið velunnari með því að ýta hér.
Nánar um Music Patron almennt með því að ýta hér.
Loka upptakan:
„Loftkastali“ – flutt af sellóleikaranum Clare O’Connell. Clare er frábær tónlistarmaður sem hefur flutt Loftkastala margoft víða um England. Aðrir sellóleikarar hafa einnig flutt verkið í Dublin, Cardiff og á Íslandi.
Fleiri upptökur: https://helgiingvarsson.com/works#/streaming
Kær kveðja,
Helgi